Aðferðir og vinnulag

Áskorun beitir aðferðum í kennslu og námi, sem eru sóttar bæði til formlegs og óformlegs (formal og non-formal) skipulags um nám, allt eftir þvi hvað þjónar best markmiðum verkefnisins.

Formlegar námsaðferðir eru þær aðferðir sem við þekkjum frá skólakerfinu og fara oftast fram á milli fjögurra veggja í skólastofum. Þar kemur kennari tilteknu námsefni eða þekkingu á framfæri við nemendur, sem eiga að tileinka sér þekkinguna. Oft fer námið þannig fram að kennari stendur andspænis nemendum sínum og flytur þeim þessa nýju þekkingu. Þannig gerum við líka hjá Áskorun ehf - við flytjum fyrirlestra, notum Power-point sýningar, flettitöflur, töflur og krít, og aðrar aðferðir formlegs náms, eftir því sem við á, til að koma þekkingu á framfæri. 

Óformlegar og þátttakendamiðaðar námsaðferðir eru þær aðferðir sem við hjá Áskorun beitum mest og viljum helst beita. Við trúum því að ný þekking geymist betur og sé nemandanum nærtækari, ef hann hefur tækifæri til að nota nýju þekkinguna við úrvinnslu verkefna. Óhefðbundnar námsaðferðir byggja oft á: a) að greina námsmarkmið og hanna verkefni við hæfi, b) samstarfi og c) að virkja þá þekkingu og hæfileika sem búa í hópum.
Óformlegar aðferðir fela oft í sér að kennarinn er ekki eini handhafi þekkingar, heldur bendir hann nemendunum á leiðir til að nálgast markmið sín, þekkingu og nám. Því er kennarinn líka leið-beinandi eða vegvísir og nemendurnir skilgreina sjálfir hvenær markmiðum námsins hefur verið náð. Að auki notum við hjá Áskorun öll tækifæri sem okkur bjóðast til að læra og kenna undir berum himni úti í náttúrunni. Þær óformlegu aðferðir sem Áskorun stendur fyrir og beitir, eru:

Ígrundandi og reynslumiðaðar námsaðferðir í anda John Dewey og David Kolb, byggja á námsferlum sem hefjast á:

  1. beinni upplifun eða reynslu, þar sem tekist er á við viðfang námsins, síðan fer fram 
  2. ígrundun á þeirri reynslu sem einstaklingurinn og hópurinn fengu við þátttökuna, sem leiðir til 
  3. alhæfinga eða ályktana, sem leiða má af reynslunni og ígrunduninni, þær geta leitt til 
  4. beitingar þeirrar nýju þekkingar sem einstaklingurinn eða hópurinn hefur nú eignast.

Náttúran og útivist: Við hjá Áskorun notum öll tækifæri sem bjóðast til að vera, læra og kenna undir berum himni úti í náttúrunni. Manneskjan, samkvæmt okkar skilningi, hefur frá alda öðli verið í stöðugu námi hjá og samtali við náttúruna og það sem kalla má „þarna úti“. Þarna úti er að okkar mati ríkara námsumhverfi en það sem hægt er að bjóða upp „milli fjögurra veggja“ í húsum. Virðisaukinn við að læra úti felst í því að úti í náttúrunni lærum við bæði námsefnið sem er á dagskrá og "eitthvað meira". Það liggja verðmæti og mikilvægt nám í þessu eitthvað meira, bæði fyrir nemendurna og okkur hin.

Leikhús lausna: Er leikræn aðferð frá Alberto Boal um „hið frelsandi“ eða Forum leikhús, þar sem þátttakendur leikgera aðstæður úr lífinu sem einkennast af einhvers konar „klípu“. Viðstaddir leita saman að lausnum við þeim aðstæðum sem lýst er og geta prófað á eigin skinni viðbrögðin sem þau valda. Þannig safna viðstaddir hugmyndum eða klasa af mögulegum viðbrögðum við tilteknum klípuaðstæðum.

Jafningjanám og jafningjafræðsla: Þessi gerð náms á sér stað þegar jafningjar mætast, eða þegar námshópur áttar sig á að hópurinn sjálfur er uppspretta náms. Mikið nám á sér stað þegar reynsla þátttakendanna, ásamt þekkingu þeirra, færni og getu er beisluð til að auka hæfni og kunnáttu alls hópsins.

Opin námsrými: Við beitum ýmsum afbrigðum af þeirri aðferðafræði (Open Space Technology, OST), sem Harrison Owen og félagar hans hafa þróað til að laða fram og koma skipulagi á úrvinnslu ólíkra málefna eða verkefna, sem brenna á fólki og fyrirtækjum.